Icelandic(IS)English (United Kingdom)

Könnun

Hefurðu notað bændagistingu
 
Um Steindórsstaði

Steindórsstaðir eru í sunnanverðum Reykholtsdal, litlu innar en Reykholt. Jörðin er um 2900 hektarar, auk þess sem hálft fjallendi Búrfells, um 1500 hektarar, tilheyra henni.

Jörðin hefur verið í eigu sömu ættar frá 1828. Hér var hálfkirkja í kringum 1100 og hafa fundist ummerki um kirkjugarð þegar grafið hefur verið fyrir húsum hér. Eitt sinn fannst hér heil beinagrind, er verið var að grafa í hlöðugólf, en hún var flutt suður til vörslu og rannsóknar á þjóðminjasafni.

Við hófum búskap hér 1988. Aðalbúgreinin er kúabúskapur með 30 mjólkurkúm og öðru eins af geldneytum. En þar að auki höfum við 60 kindur, 8 hross, 2 hunda og kött. Skógrækt er hér í u.þ.b. 25 hekturum, auk þess sem við höfum ræktað skjólbelti, og erum við félagar í Félagi skógarbænda á vesturlandi. Fyrir var hér skógarreitur, “Imbugarður”, en byrjað var að planta í hann 1944. Var það Ingibjörg Pálsdóttir (d.11. 09. 2001),  fyrrum bústýra á bænum, sem átti heiðurinn af þeirri ræktun. Kornrækt er lítilsháttar, en kornið er þurrkað og aðallega nýtt sem fóður fyrir kýrnar. Silungsvatn, Sandvatn, er hér sunnan við hálsinn og er þar mjög góður matfiskur. En vegna þess hve aðgengi að vatninu er erfitt er ekki veitt í því sem skildi.
 
Gistihúsið.
Verið er að vinna að endurgerð eldra íbúðarhússins á bænum. Það var byggt 1937, en þá brann gamli torfbærinn, og ráðist var í byggingu neðri hæðar hússins. Bruninn átti sér stað á miðju sumri, eftir mikla þurrka, þannig að ekki var við neitt ráðið. Varð heimilisfólkið, 11 manns, því að flytja í fjárhúsin með það litla sem bjargaðist, en það var nánast eingöngu þeir lausamunir sem voru í baðstofunni. Fólkið hafðist við í fjárhúsunum í þrjá mánuði, eða þar til húsið var íbúðarhæft. Þá deildi það með sér þrem litlum herbergjum og má nærri geta að þröngt hafi verið um mannskapinn.
Síðan var byggt ofan á húsið um 1950 og viðbyggingu bætt við upp úr 1960.
Núverandi framkvæmdir hófust í maí 2009, þegar allt var rifið innan úr húsinu, og hafa þær staðið yfir mest allt síðasta ár. Meiningin er að þeim verði að fullu lokið, ásamt framkvæmdum utandyra, 1. júní næstkomandi.
 

Smelltu á mynd

umsteindorsstadiumsteindorsstadiumsteindorsstadi